Í djúpum bókum blaðaðu,
fróðleikinn aðlaðaðu,
í hugarhillur raðaðu,
á eigin þróun hraðaðu.
Í þekkingu þig baðaðu
á blekkingum þig varaðu.
Neglur, reglur, nagaðu.
Sjálfur sjálfið agaðu.
Vítis spítu sagaðu,
í við, lífið lagaðu.
Með nóg af ró þér hagaðu.
Erfið kerfi klagaðu.
Líkt og sjórinn fjaraðu.
Í öllu fram úr skaraðu.
Ástríðunni svaraðu.
Djúpt í hugann kafaðu.
Frelsissönginn galaðu,
með auðmýktinni talaðu.
Friði niðurhalaðu.
Hugargullið malaðu.
Ástar þorsta svalaðu.
Eigin hugsun manaðu
og út í dauðann anaðu.
Egóinu banaðu
við sólarhjúpinn tanaðu.
Hræðslukippi lamaðu.
Kapphlaupinu tapaðu
af háum stalli hrapaðu.
Eftir öðrum apaðu
en eigin hugsjón skapaðu.
Við sálarkröftum stjakaðu,
andlaust skeggið rakaðu,
í heila beinum brakaðu,
í öllum gjörðum slakaðu,
við möguleikann hakaðu
að vera ekki þjakaður.
Hjartablöðkum blakaðu!
Þakklætinu makaðu
á hugarplötu og bakaðu.
Illan mann ásakaðu,
um illar gjörðir masaðu,
orðspor djöfla slasaðu,
og ef þú ert dasaður
,
gefstu upp og hrasaðu.
Eiginn hroka mataðu
skítugur útataður
veginn ekki rataðu.
Ekki elska hataðu,
töfrum lífsins glataðu.